Forystufordinn

Skissa af ætluðu útliti Forystufordsins

Verkefnið byggir á mikilli reynslu af því að leiðsegja erlendum ferðamönnum við krefjandi aðstæður í gegnum útvarpsstöð á hjólum i stað þess að notast við talstöðvar. Kostirnir eru fjölmargir, betri hljómgæði, möguleiki á að taka inn síma, gesti og skjóta inn tónlist. Jafnframt er hægt, líkt og í hefðbundinni dagskrárgerð að byggja útsendinguna á fyrirfram uppteknu efni.

Farþegarýmið er í raun útbúið sem hljóðver með fjóra hljóðnema og tengimöguleika fyrir hljóðfæri. Þaðan er stýrt dagskrá sem samanstendur af tónlist og ýmsu uppteknu efni en einnig er hægt að taka í loftið gesti í gegnum síma sem síðan er hluti af dagskránni. Á pallinum er svo sá útbúnaður sem þarf til að útvarpa merkinu sem ber dagskránna. Bílar í um það bil 15 km radíus frá Forystufordinum ná með góðu móti útsendingunni með því að stilla á útsendingartíðni hans.

Auk erlendra verkefna er Forystufordinn heppilegur í ferðalög fyrirtækja þar sem viðskiptavinir eða starfsfólk eru á ferðinni. Forystufordinn fer líka í sérstakar ferðir fyrir almenning frá ýmsum stöðum. Greitt er fyrir hvern bíl sem slæst í för eða hvern gest. Öll verkefni tengd fyrirtækjum eru unnin samkvæmt tilboði.

Verkefnið er í vinnslu. Óskað hefur verið eftir samstarfi við fjölda aðila, efnistök hafa verið skilgreind og allur sértækur búnaður er tilbúinn. Reiknað var með að fara af stað í tilraunaferðir haustið 2020. Það má með sanni segja að aldrei hafi verið jafn mikil þörf fyrir leiðsögn af þessu tagi. Vöntun er á efni á íslensku fyrir íslendinga og svo er mikill kostur að geta verið á eigin forsendum á eigin bíl í hópi en samt einangraður.