Ég er rosalega peppaður fyrir þessari gjöf. Það er, eins og komið hefur fram áður, ekki hlaupið að því að finna afmælisgjöf sem er samboðin stóru ástinni minni. Gjöf sem framkallar varanleg áhrif, skapar minningar sem hægt er að ylja sér við aftur og aftur, eitthvað sem afmælisbarnið man lengur en fram að næsta afmælisdegi.
Einn af þínum skemmtilegu kostum er þekking þín og ást á ákveðnu tímabili. Tímabili sem er mér mjög kært, mótaði mig og vekur alltaf upp frábærar minningar. Það eru nokkrir hlutir frá þessum tíma sem þú leitar mikið í, hlutir sem framkalla sælu og gleði, hlutir eins og tónlist, kvikmyndir og tíska.
Fyrir mörgum mánuðum fann ég svolítið sem þú bara verður að upplifa og í mínum huga tengist þér órjúfanlegum böndum.
Við kyrrlátt vatn, djúpt inn í Virginiufylki Bandaríkjanna, er krúttlegt hótel. Þarna, rétt um fjórar klukkustundir vest-suð-vestur af Washington D.C, svo gott sem úti í buskanum, er stórbrotið útsýni yfir Appalacian fjallgarðinn og óspillta náttúru. Í svölum andvara fjallanna hafa ferðamenn hvílt lúin bein í áratugi og notið gestrisni, matar og minninga.
Í langan tíma var þetta krúttlega hótel bara eitt af þessum krúttlegu hótelum með kaffihúsi, matsölustað, gönguleiðum, friðsælu vatni og ennþá krúttlegri timburhúsum sem hægt var að gista í. Þegar þú varst líklega tveggja eða þriggja ára breytist margt á þessum afvikna stað.
Hópur fólks sem lengi hafði dreymt um að segja áhrifamikla sögu en bjó við þröngan fjárhag, kom á staðinn og ákvað að hann yrði sögusvið þar sem miðaldra hjón fara með alla fjölskylduna í hálfgerðar sumarbúðir, líkt og tíðkaðist meðal Bandaríkjamanna á fimmta, sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.
Ýmislegt gekk þar á en hálft í hvoru segir þessi ódauðlega saga frá fjölskyldunni og samskiptum þeirra við starfsfólkið og aðra gesti. Sumarið sem sagan gerist var síður en svo tíðindalaust og tekist var á við ýmsar áskoranir, brjóta þurfti niður staðalímyndir og staðurinn fór ekki varhluta af þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað víða um heim.
Undirtónninn, í bókstaflegri merkingu, er kynþokkafull sálartónlist, hávært kall um frelsi og hispurslausa tjáningu. Af mörgum voru þarna á ferðinni óþekkt, óhreinar hugsanir og ókristilegt athæfi sem sannarlega ætti rætur sínar að rekja til sjálfs djöfulsins.
Þú hefur horft oftar á þessa mynd heldur en góðu hófi gegnir en nú er tímabært að þú gangir í fótspor saklausu stúlkunnar sem hlaut viðurnefnið Baby. Skoðir húsin sem starfsfólkið gisti í, vatnið þar sem æfðar voru lyftur og gistir tvær nætur á hótelinu þar sem sagan sem allir þekkja sem kvikmyndina Dirty Dancing varð ljóslifandi.
Annir og þétt dagskrá okkar kom i veg fyrir að ég bókaði þetta ævintýri en nú skulum við finna tíma fyrir langa helgi, flug til Washington, akstur til Pembroke, tvær nætir í faðmi fjalla þar sem enginn verður í horn settur. Já, “Nobody puts baby in the corner.”
Elska þig mest baby, hlakka til að upplifa með þér Mountain Lake Lodge og okkar eigin Dirty Dancing – já í herberginu sem Patrick Swayze gisti í á meðan á tökum stóð.